Bakkavör Group hefur keypt eftirstandandi hlutafé í kínverska salatfyrirtækinu Creative Foods í samstarfi við Glitni. Í tengslum við kaup á 40% hlut í félaginu í mars 2006 stofnuðu Bakkavör Group og Glitnir nýtt félag, Bakkavör China, sem einbeitir sér að fjárfestingum í Kína. Eftir kaupin á Bakkavör 80% hlut í Creative Foods og Glitnir 20%. Glitnir veitti ráðgjöf og fjármagnaði kaupin, en kaupverðið er trúnaðarmál. Kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu

Creative Foods ræktar og framleiðir ýmiss konar salöt, eða um 250 vörutegundir í fimm verksmiðjum fyrir stórmarkaði og veitingahúsakeðjur í Kína. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 750 talsins. Á meðal helstu viðskiptavina fyrirtækisins er Yum! Brands, sem er ein stærsta veitingahúsakeðja í heimi og rekur meðal annars
Kentucky Fried Chicken og Pizza Hut. Aðrir viðskiptavinir eru meðal annars Wal*Mart, Carrefour, Starbucks og Burger King.

Einar Gústafsson, framkvæmdastjóri Bakkavör Asía sagði í tilkynningu: "Afkoma Creative Foods hefur verið yfir væntingum á undanförnum misserum og jókst proforma sala um 23% á árinu 2006 og um 15% á fyrsta ársfjórðungi 2007.

Eftirspurn eftir heilsusamlegum, handhægum gæðamat hefur aukist verulega í Kína og felur þetta í sér mikil vaxtartækifæri fyrir okkur. Áætlað er að markaðurinn fyrir kældar matvörur vaxi um 30% á næstu fjórum árum í Kína og við stefnum að því að styrkja stöðu okkar á kínverska matvælamarkaðnum sem og á öðrum ört vaxandi mörkuðum í Asíu.?

Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri Alþjóðasviðs Glitnis sagði: ?Starfsemi Glitnis í Kína er í góðum vexti um þessar mundir. Okkar stefna er að vinna með viðskiptavinum okkar að ábatasömum verkefnum og samstarfið við Bakkavör við kaupin á Creative Foods eru liður í þeirri stefnu. Matvælaiðnaður er ein af þeim greinum sem Glitnir einbeitir sér að við vöxt á alþjóðamörkuðum og Creative Foods er spennandi félag með góða vaxtarmöguleika. Starfsfólk Glitnis í Shanghai hefur unnið mjög vel að þessu máli í góðu samstarfi við starfsfólk og stjórnendur Bakkavarar?