Bakkavör Group hefur keypt franska salatframleiðandann 4G, sem sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum tilbúnum
salötum fyrir franskan markað. Stefnt er að því að samþætta rekstur 4G rekstri salatframleiðandans Cinguieme Saison, sem fyrir er í eigu félagsins. Kaupin koma til með auka framleiðslugetu og styrkja samband Bakkavör Group við viðskiptavini félagsins í Frakklandi auk þess sem þau skapa jafnframt tækifæri til frekari hagræðingar í rekstri. Þetta kemur fram í tilkynningu.

4G einbeitir sér að framleiðslu ferskra tilbúinna salatafurða undir vörumerkjum viðskiptavina sinna en hefur jafnframt náð umtalsverðum árangri í sölu á vörum undir eigin vörumerki, ?Vert Desire?. Velta fyrirtækisins er 2,3 milljarðar króna (26,3 milljónir evra) og skiptir félagið við alla helstu stórmarkaði Frakklands. 4G, sem var stofnað árið 2002, rekur eina verksmiðju í Macon, 70 km norður af Lyon í Frakklandi og er með 165 starfsmenn.

Kaupin eru fjármögnuð úr sjóðum félagsins og er kaupverðið trúnaðarmál. 4G verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi en kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins á þessu ári.

?4G fellur vel að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru í eigu Bakkavör Group og teljum við að kaupin komi til með að styrkja stöðu félagsins á markaðinum fyrir tilbúin salöt í Frakklandi, í samræmi við langtímastefnu félagsins," segir Ágúst Gudmundsson forstjóri.