Bakkavör Group hefur náð samkomulagi um kaup á öllu útgefnu hlutafé Fresh Cook Limited, samrekstrarfélags Bakkavör Group og Rannoch Foods síðan í október 2004, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaupin eru fjármögnuð úr sjóðum félagsins og er kaupverðið trúnaðarmál. Fresh Cook verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi en kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins á þessu ári.

Fresh Cook, sem er staðsett í Lincolnshire í Bretlandi og er með um 360 starfsmenn, framleiðir einkum vörur fyrir Marks & Spencer. Réttir tilbúnir til eldunar (e. ready to cook) eru frábrugðnir hefðbundnum tilbúnum réttum að því leyti að þeir innihalda óeldað hráefni og þarfnast því eldunar í stað upphitunar eingöngu.

Þessir réttir hafa notið mikilla vinsælda að undanförnu og hefur markaðurinn fyrir þessar vörur vaxið hraðar en markaðurinn fyrir tilbúna rétti í heild, eða um 6% á fyrstu níu mánuðum ársins. Í kjölfar kaupanna mun Bakkavör Group vera með um 11% markaðshlutdeild á þessu sviði, segir í tilkynningunni.

,,Markaðurinn fyrir rétti sem eru tilbúnir til eldunar vex hratt og bíður upp á ýmis tækifæri sem stafa af aukinni eftirspurn eftir tilbúnum matvælum sem framleidd eru úr fersku úrvalshráefni. Við erum nú þegar leiðandi í öllum lykilvöruflokkum okkar og það er mikilvægt að styrkja einnig stöðu okkar enn frekar á þessu sviði,? sagði  Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar.