Bakkavör Group hf. mun í dag óska eftir heimild til að leita nauðasamnings hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar en kröfuhafar félagsins sem hafa yfir um 80% af skuldum félagsins að ráða hafa mælt með nauðasamningi en heildarfjárhæð skulda móðurfélags Bakkavarar nemur um 62,5 milljörðum króna.

Í tilkynningunni segir að nauðasamningsferlið mun engin áhrif hafa á starfsemi Bakkavarar, en á síðasta ári var gengið frá endurfjármögnun rekstrarfélaga fyrirtækisins fram til ársins 2012.

!Samkvæmt framlögðum samningi munu kröfuhafar í meginatriðum fresta öllum gjalddögum lána og skráðra skuldabréfaflokka félagsins til ársins 2014 en markmiðið er að kröfuhafar félagsins muni endurheimta fullt virði krafna sinna og ekki verði um afskriftir að ræða,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að liður í samningnum er að leggja til við hluthafafund að skipta hlutafé félagsins í þrjá flokka, A, B og C-flokk. Núverandi hlutafé verður í A-flokki.

„Með samþykki samningsins munu allir hagsmunaaðilar njóta ávinnings af þeim árangri sem náðst hefur í rekstri félagsins í kjölfar hagræðingaraðgerða sem félagið hefur unnið að undanfarin misseri,“ segir í tilkynningunni.

„Áætlanir félagsins gera jafnframt ráð fyrir bættri afkomu og að hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) muni aukast um 14% á ári og sala um 4% á ári til ársins 2012.“

Ágúst Guðmundsson forstjóri Bakkavarar segir í tilkynningunni að mikilvægum áfanga sé nú náð í fjárhagslegri endurskipulagningu móðurfélags Bakkavarar.

„Markmiðið er að standa vörð um verðmæti fyrir kröfuhafa og hluthafa félagsins, en íslenskir lífeyrissjóðir eru þar á meðal,“ segir Ágúst í tilkynningunni.

„Þrátt fyrir krefjandi aðstæður á mörkuðum tel ég að þær aðgerðir sem félagið hefur ráðist í, ásamt þeim möguleikum sem reksturinn býr yfir, muni skila bættri afkomu á komandi árum. Ég er því vongóður um að okkur takist að greiða upp allar skuldir félagsins á Íslandi með vöxtum á næstu fjórum árum.”