Tap Bakkavör Group á síðasta ári nam alls 154,2 milljónum Sterlingspunda samanborið við hagnað upp á 47,4 milljónir punda árið áður. Þar af nam tap félagsins á fjórða ársfjórðungi 98,5 milljónum punda, samanborið við hagnað að upphæð 10,4 milljónir punda árið 2007.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Bakkavör Group en veltan á árinu nam 1,6 milljörðum punda sem er 10% aukning milli ára. Þar af var veltan 412,5 milljónir pund á fjórða ársfjórðungi síðasta árs sem er 11% aukning milli ára.

EBITDA hagnaður félagsins fyrir kostnað vegna endurskipulagningar nam 108,5 milljónum punda á árinu 2008 sem er 27% lækkun milli ára en hagnaðurinn nam 15,7 milljónum punda á fjórða ársfjórðungi síðasta árs sem er 53% lækkun milli ára.

Þá nam EBITDA hlutfall fyrir kostnað vegna endurskipulagningar 6,7% á árinu og 3,8 % á fjórða ársfjórðungi .

Þá kemur fram að einskiptiskostnaður nam 177 milljónum punda, m.a. vegna kostnaðar af hagræðingaraðgerðum á tímabilinu, taps af fjárfestingu félagsins í Greencore Group, taps af gangvirðisbreytingum vaxtaskiptasamninga og gengistaps af erlendum lánum félagsins, auk áhrifa gjaldfærslu skatta vegna afnáms skattaívilnunar á iðnaðarhúsnæði í Bretlandi á tímabilinu.

Handbært fé frá rekstri fyrir skatta og vexti var 45,7 milljónir punda á árinu sem er 67% lækkun milli ára og handbært fé frá rekstri fyrir skatta og vexti á ársfjórðungnum var neikvætt um 22,7 milljónir punda samanborið við innflæði handbærs fjár fyrir skatta og vexti 27,6 milljónir punda á fjórða ársfjórðungi 2007.