Bakkavör Group hf. hefur ákveðið að taka þátt í hlutafjáraukningu í Fram Foods hf. og jafnframt að nýta sér heimild til að auka hlut sinn í félaginu með því að breyta láni til félagsins í hlutafé. Fram Foods keypti sjávarútvegsstarfsemi Bakkavör Group á miðju ári 2003. Fram Foods framleiðir matvæli unninn úr sjávarafurðum sem seld eru í neytendaumbúðum víðs vegar um heim, en félagið er með starfsemi í sex löndum: Svíþjóð, Frakklandi, Íslandi, Þýskalandi, Chile og Finnlandi.

Vörurnar eru framleiddar undir eigin vörumerkjum og vörumerkjum verslana. Lykilstarfsmenn eiga ráðandi hlut í Fram Foods, auk Bakkavör Group og KB banka. Starfandi stjórnarformaður félagsins er Halldór Þórarinsson og forstjóri er Hilmar Ásgeirsson.

Eignarhlutur Bakkavör Group nam fyrir kaupin 19,0% af hlutafé Fram Foods en nemur 30,5% eftir þessi viðskipti. Í samræmi við aukinn eignarhlut Bakkavör Group í Fram Foods verður eignarhluturinn færður samkvæmt hlutdeildaraðferð í reikningsskil Bakkavör Group en eignarhluturinn var áður færður á kostnaðarverði. Þessi breyting mun ekki hafa veruleg áhrif á afkomu og efnahag Bakkavör Group.

"Eftir kaupin á Boyfoods Oy, einum stærsta síldarframleiðanda í Finnlandi, er Fram Foods orðinn einn öflugasti framleiðandi síldarafurða á Norðurlöndunum. Mikil samlegðaráhrif felast í kaupunum og með þátttöku Bakkavör Group leggjum við okkar að mörkum til að stuðla að áframhaldandi vexti og velgengni Fram Foods," segir Lýður Guðmundsson, forstjóri Bakkavör Group, í tilkynningu til Kauphallarinnar.