Bakkavör hefur ákveðið að stefna að því að safna 100 milljon breskra punda, eða sem nemur 13,7 milljörðum íslenskra króna, í hlutabréfaútboði við skráningu á markað í Bretlandi í næstu viku.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku ákvað félagið að fresta áður fyrirhuguðu hlutabréfaútboði vegna óvissu á mörkuðum, en nú hefur fyrirtækið tilkynnt um að það ætli að láta verða af skráningunni í bresku kauphöllina.

Heildarmarkaðsvirði 137 milljarðar króna

Ef þeir ná markmiðum sínum er heildarmarkaðsvirði fyrirtækisins um 1 milljarður breskra punda, eða 137 milljarðar íslenskra króna, en félagið hyggst setja um fjórðung af hlutabréfum sínum á bresku kauphöllina að því er Insider segir frá.

Stofnendur félagsins, Ágúst og Lýður Guðmundssynir og bandaríski vogunarsjóðurinn Baupost munu hins vegar halda eftir 75% hlut í kjölfar þess að viðskipti munu hefjast með bréf félagsins í kauphöllinni í næstu viku. Ákvað félagið að hætta við að hætta við skráninguna á markað eftir viðræður við fjárfesta, en útboðsgengi hlutabréfa félagsins hefur verið lækkað úr 195 pensum á hlut í 180 pens hver hlutur.

Bakkavör er stærsti framleiðandi hummus í Bretlandi, en það framleiðir tilbúna rétti fyrir Tesco, Sainsbury´s, Marks & Spencer og Waitrose en fyrirtækið telur sig hafa um 30% markaðshlutdeild í landinu fyrir tilbúna rétti, pizzur og eftirrétti.