Bakkavör, fyrirtæki sem lýtur forystu bræðranna Lýðs og Ágústar Guðmundssonar, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hafna því að verksmiðja þeirra í Hampshire í Englandi dæli menguðu affallsvatni út í náttúruna.

Kemur yfirlýsingin í kjölfar þess að yfir 6 þúsund manns hafa ritað nafn sitt á undirskriftarlista til uhverfisstofnunar Bretlands um að taka harðar á verksmiðjunni sem er undir merkjum Alresford Salads. Textinn sem skrifað var undir er á þá leið að Alresford tjörnin sé nú full af manngerðum eiturefnum og vatnasvæði Itchen árinnar standist ekki gæða- og hreinlætiskröfur.

Í yfirlýsingunni segir Bakkavör þvert á móti að það taki umhverfisskyldur sínar alvarlega og hvað sagt sé um umsókn félagsins til umhverfisstofnunarinnar um áframhaldandi losun vatns sé villandi.

„Verksmiðja Alresford Salads þrífur öll salatblöð upp úr óklórblönduðu vatni sem og að allt vatn sem renni frá framleiðslunni er síað og meðhöndlað svo það standist kröfur umhverfisstofnunar.“ Jafnframt segist fyrirtækið tilbúið að fara til viðræðna við íbúa á svæðinu að því er segir á vefnum foodmanufacture.co.uk .