Bakkavör hagnaðist um 5,4 milljónir punda, jafnvirði eins milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Á sama tíma í fyrra tapaði félagið 1,5 milljónum punda. Fram kemur í uppgjöri félagsins að á sama tíma og tekjur jukust hafi dregið úr fjármagnskostnaði.

Velta Bakkavarar nam 392,7 milljónum punda, jafnvirði tæpra 73,4 milljarða íslenskra króna, og var það 1,2% aukning á milli ára. Rekstrarhagnaður nam 11,7 milljónum punda, tæpum 2,2 milljörðum króna, og var það 13,6% aukning frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Í lok fjórðungsins námu eignir Bakkavarar tæpum 1,3 milljörðum punda og skuldir 980,4 milljónum punda.

Bakkavör er að mestu í eigu íslenskra aðila. Bakkabræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur félagsins og stærstu hluthafar eiga  40 prósenta hlut. Arion banki kemur á eftir með 34 prósenta hlut. Íslenskir lífeyrissjóðir eiga það sem út af stendur.