Matvælafyrirtækið Bakkavör Group hefur samþykkt að kaupa breska fyrirtækið Laurens Patisseries Limited fyrir 130 milljónir punda, sem samsvarar 17,6 milljörðum króna, segir í fréttatilkynningu.

Laurens Patisseries sérhæfir sig í framleiðslu kældra eftirrétta og er á meðal stærstu fyrirtækja á sínu sviði í Bretlandi.

Kaupin eru fjármögnuð með sambankaláni, sem leitt verður af breska bankanum Barclays, og með hlutabréfum í Bakkavarar-samstæðunni.

Ágúst Guðumundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, segir kaupin gott dæmi um áform félagsins að styrkja stöðu sína á matvælamarkaði í Bretlandi.

Fyrirtækið keypti breska matvælafyrirtækið Geest í fyrra fyrir 485 milljónir punda, eða 65,6 milljarða króna á núverandi gengi. Einnig keypti Bakkavör nýlega breska brauðframleiðandann New Primbake Limited, en kaupverðið var ekki gefið upp. Hagnaður Primebake fyrir fjármagnsliði og skatta nam þremur milljónum punda í fyrra.

Laurens er fjölskyldufyrirtæki með um 1200 starfsmenn. Velta fyrirtækisins í fyrra nam 75 milljónum punda, eða rúmlega tíu milljörðum króna og sölutekjur félagsins jukust um 20% á tímabilinu, segir í tilkynningu Bakkavarar.