Bakkavör Group hefur keypt Hitchen Foods plc í Bretlandi og er kaupverðið 4,7 milljarðar króna (44 milljónir punda). Áreiðanleikakönnun er lokið og kaupverð er að fullu greitt. Hitchen Foods framleiðir ferskt niðurskorið grænmeti og salat fyrir stærstu verslunarkeðjur Bretlands. Kaupin eru fjármögnuð með brúarláni frá KB banka.

Afkoma Hitchen Foods hefur verið góð undanfarin ár. Gert er ráð fyrir að EBITDA yfirstandandi árs hjá Hitchen Foods verði um 911 milljónir króna (8,5 milljónir punda) og velta í kringum 5,1 milljarð króna (48 milljónir punda). Hitchen Foods verður tekið inn í rekstur Bakkavör Group frá kaupdegi og mun því koma fram í uppgjöri fyrirtækisins á fjórða ársfjórðungi 2005. Kaupin munu ekki hafa veruleg áhrif á rekstur Bakkavör Group fyrr en á árinu 2006.

Aðalávinningur yfirtökunnar er aukin markaðshlutdeild á vörusviði Hitchen Foods, en markaðurinn fyrir ferskt niðurskorið grænmeti hefur vaxið um 80% frá árinu 2000 og er spáð áframhaldandi vexti í takt við aukna eftirspurn eftir ferskum tilbúnum matvörum í Bretlandi. Auk þess munu kaupin styrkja sambönd Bakkavör Group við lykilviðskiptavini. Horfur eru góðar hvað varðar áframhaldandi vöxt og tækifæri eru til stækkunar verksmiðju Hitchen Foods í framtíðinni.

Líkt og við fyrri yfirtökur, lögðu stjórnendur Bakkavör Group áherslu á að semja við helstu lykilstarfsmenn um áframhaldandi störf og hafa samningar nú náðst við helstu stjórnendur Hitchen Foods. Ennfremur, munu fyrri eigendur vera félaginu til ráðgjafar á næstu mánuðum.


Hitchen Foods er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1961 og framleiðir ferskt niðurskorið grænmeti og salat fyrir smásölumarkaðinn í Bretlandi. Um 750 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu sem rekur eina verksmiðju í Wigan, Lancashire, í Bretlandi. Ferskt niðurskorið grænmeti er rúmlega helmingur af sölu fyrirtækisins en tilbúin salöt eru jafnframt stór hluti af sölu.

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavör Group segir í tilkynningu félagsins: ?Yfirtakan á Hitchen Foods endurspeglar stefnu okkar um áframhaldandi vöxt á sviði ferskra og kældra tilbúinna matvæla og er jafnframt gott tækifæri til að styrkja stöðu okkar á markaðnum fyrir ferskt niðurskorið grænmeti sem vex hratt og fellur vel að núverandi vöruflokkum okkar. Hitchen Foods er vel rekið fyrirtæki með góða afkomu og reynslumikla stjórnendur. Við gerum ráð fyrir að þau samlegðaráhrif og stærðarhagkvæmni, sem nást með, yfirtökunni muni stuðla að áframhaldandi velgengni og vexti fyrirtækisins."