Bakkavör er á leið úr landi og verður framvegis skráð í Bretlandi. Þá verður íslenska móðurfélaginu slitið. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oft kallaðir Bakkabræður, munu kaupa 25% hlut í Bakkavör fyrir um 4 milljarða króna í hlutafjáraukningu. Bræðurnir stofnuðu Bakkavör en áttu ekkert í félaginu fyrir kaupin. Haft er eftir bræðrunum að erlendir bankar hafi viljað bræðurna í hluthafahópinn.

Bakkavör fór í nauðasamninga árið 2010. Bræðurnir fóru þá úr hluthafahópnum en sáu þó áfram um rekstur fyrirtækisins. Á aðalfundi félagsins í gær sagði Lýður þá ekki sjá nokkurn möguleika á að félagið geti greitt skuldir sínar. Því hafi verið ákveðið að breyta skuldunum í hlutafé en slíkt þynnir eðli málsins samkvæmt út núverandi hluthafa. Nú eiga kröfuhafar því 67%, hluthafar í A-flokki 8% og Bakkabræðurnir 25%.

Við þessar breytingar verður félagið jafnframt alfarið breskt en fram að þessu hefur móðurfélagið verið skrá á Íslandi.

Minni hluthafar segjast ósáttir við að hafa ekki verið boðið að kaupa í Bakkavör á sama tíma og stofnendunum.