Miklar sveiflur hafa verið á gengi hlutabréfa í matvælafyrirtækinu Bakkavör, sem er í meirihlutaeigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona. Bakkavör er skráð á markað í Bretland og við lokun þeirra í gær stóð gengið í tæplega 106 pundum. Þann 20. febrúar var gengið 139 pund og hefur það því lækkað um 24% á tveimur vikum.

Á sama tímabili hefur FTSE -vísitalan lækkað um 9,6% og vísitala matvælaframleiðenda í kauphöllinni í London um 11,6%. Þegar Bakkavör var skráð á markað í London í lok árs 2017 kostaði hluturinn 190 pund. Í gær fór hlutabréfagengið um tíma niður í ríflega 101 pund sem er það lægsta frá skráningu.

Bræðurnir Lýður og Ágúst eiga í dag 50,16% hlut í Bakkavör í gegnum Carrion Enterprises Limited og Umbriel Ventures Limited , sem og Lixaner Co Limited . Er síðastnefnda félaginu stjórnað af Sigurði Valtýssyni, fyrrverandi forstjóra Exista og telst það tengdur aðili. Bræðurnir seldu samtals 1,11% hlut til Lixaner í maí á síðasta ári.

Markaðsvirði Bakkavarar í dag er um 618 milljónir punda en fór hæst í 1,1 milljarð punda í lok janúar 2018 en þá stóð gengi bréfanna í tæplega 213 pundum. Miðað við núverandi gengi krónunnar gagnvart pundi hefur markaðsvirðið farið úr ríflega 180 milljörðum króna í ríflega 101 milljarð. Markaðsvirði félagsins hefur því lækkað um tæp 44% síðan í byrjun árs 2018.

Bakkavör skilaði ársreikningi í lok síðustu viku. Samkvæmt honum jukust tekjurnar um 1,5% á milli ára eða úr 1.857 milljónum punda í 1.886 milljónir. Engin breyting varð á afkomu félagsins að teknu tilliti til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta ( EBITDA ). Var hún 153,5 milljónir punda í fyrra eins og árið 2018. Hagnaður félagsins dróst hins vegar saman um 45,1% á milli ára. Fór hann úr 67,2 milljónum punda árið 2018 í 36,9 milljónir í fyrra. Meginstarfsemi Bakkavarar er á Bretlandseyjum, þar sem félagið starfrækir 25 verksmiðjur og hefur um 17 þúsund starfsmenn í vinnu. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í London .

Bakkavör rekur í dag fimm verksmiðjur í Bandaríkjunum, þar sem það er með um 600 starfsmenn í vinnu og níu verksmiðjur með um 2.000 starfsmönnum í Kína. Mesti vöxturinn hefur einmitt verið á þessum mörkuðum en þar jukust tekjur Bakkavarar um tæplega 13% á milli ára og námu um 227 milljónum punda á síðasta ári.

Loka tveimur verksmiðjum

Ein af verksmiðjum Bakkavarar í Kína er í borginni Wuhan , þar sem kórónuveiran greindist fyrst fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan.

„Útbreiðsla kórónuveirunnar hefur haft veruleg áhrif á starfsemi okkar í Kína," er haft eftir Ágústi Guðmundssyni, stjórnarformanni Bakkavarar, í tilkynningu til kauphallarinnar London vegna ársuppgjörs félagsins. Þar kemur jafnframt fram að verksmiðjunni í Wuhan , sem og verksmiðju félagsins í borginni Taicang , sem er við austurströnd Kína, hafi verið lokað tímabundið vegna kórónuveirunnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér