Bakkavör hefur opnað nýja verksmiðju í Kína og verða matvæli ræktuð af fyrirtækinu sjálfu fyrir verksmiðjuna. Í frétt á vefsíðu Bakkavarar segir að verksmiðjan og býlið, sem bera heitið Creative Food, séu í Fujian og Jiangsu héruðunum í Kína og muni þau styrkja stöðu fyrirtækisins í Kína og Hong Kong.

Býlið, sem búið er nýjustu gróðurhúsa- og vatnsveitutækni, mun framleiða stóran hluta þess grænmetis sem notað verður í verksmiðjunni. Í fréttinni er haft eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að fjárfestingin sé merki um þann áhuga sem fyrirtækið hafi á asíska markaðnum, enda sé framleiðsla á ferskum mat fyrir asíumarkað stórkostlegt tækifæri fyrir fyrirtækið.