Velta Bakkavarar árið 2008 er í samræmi við væntingar stjórnenda segir í tilkynningu félagsins en sala félagsins jókst um u.þ.b. 10% frá fyrra ári; sala í undirliggjandi rekstri er óbreytt á milli ára.

Í fjórða ársfjórðungi jókst sala um u.þ.b. 11% frá fyrra ári, þar af varð söluaukning í undirliggjandi rekstri um u.þ.b. 1% sem öðru fremur má rekja til aukningar í sölu á tilbúnum réttum félagsins. Félagið hefur nú birt bráðabirgðaupplýsingar um rekstur félagsins árið 2008, en niðurstöður endurskoðaðs ársuppgjörs verða birtar þann 26. mars næstkomandi. Eins og áður hefur komið fram hafa hækkanir á hráefnis- og orkukostnaði, kostnaður vegna hagræðingar í framleiðslu félagsins á tilbúnum réttum, lakari sala yfir sumartímann og aukinn kostnaður vegna markaðsstarfs dregið úr afkomu félagsins. Því er gert ráð fyrir að EBITDA félagsins árið 2008 að undanskildum kostnaði vegna hagræðingar og hlutdeildar í afkomu hlutdeildarfélaga verði u.þ.b. 109 milljónir punda segir í tilkynningunni. Bakkavör fjárfesti fyrir u.þ.b 50 milljónir punda í fastafjármunum árið 2008, en félagið réðst meðal annars í smíði tveggja nýrra verksmiðja. Fjárfestingin er í samræmi við áherslur félagsins um að viðhalda mikilli framleiðslugetu. Þessi umtalsverða fjárfesting, auk kostnaðar vegna hagræðingar, hefur hins vegar haft áhrif á sjóðstreymi félagsins árið 2008. Sterkt sjóðstreymi er hins vegar einkennandi fyrir rekstur Bakkavarar og er reksturinn vel innan marka lánasamninga. Stjórn Bakkavarar telur að félagið sé vel í stakk búið til að skila traustu sjóðstreymi á þessu ári.