Bakkavör hefur samið um sölu á þremur verksmiðjum í Frakklandi og tveimur á Spáni fyrir 33 milljónir evra, jafnvirði tæpra 5,3 milljarða íslenskra króna. Kaupandinn er franska fyrirtækjasamstæðan Agrial. Í netmiðlinum Just-Food.com segir að Agrial hafi látið til sín taka á matvælamarkaði og keypt fjölda matvælafyrirtækja í Frakklandi upp á síðkastið.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir í samtali við breska vikuritið The Grocer söluna skerpa á áherslum í rekstrinum. Rifjað er upp að hann sagt í samtali við blaðið í október að neytendur kjósi í auknum mæli að kaupa tilbúin matvæli sem væri unnin úr hráefni sem keypt er beint frá bændum.

The Grocer söluna lið í að grynnka á skuldum Bakkavarar. Þær séu nálægt efri mörkum sem lánardrottnar geri kröfu um í lánasamningum. Skuldir Bakkavarar jafngilda 5,4-földum rekstrarhagnaði. Mörkin eru 5,74-faldur rekstrarhagnaður.

Gert er ráð fyrir því að salan gangi í gegn á fyrstu þremur mánuðum næsta árs.

Skulda 200 milljarða

Skuldir Bakkavarar námu 980,8 milljónum punda í lok þriðja ársfjórðungs. Það jafngildir rétt tæpum 200 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma námu eignir Bakkavarar 1.283 milljónum punda, jafnvirði tæpra 260 milljarða króna. Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að viðskiptavild nam 664,5 milljónum punda eða sem nemur tæpum 52% af heildareignum í lok þriðja ársfjórðungs.

Samkvæmt síðasta árshlutauppgjöri Bakkavarar námu tekjur fyrirtækisins 422,3 milljónum punda á þriðja ársfjórðungi samanborið við 413,6 milljónir í fyrra. Á sama tíma dró úr tekjum félagsins á milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins. Þær námu 1.268,8 milljónum punda frá áramótum samanborið við 1.278 milljónir á sama tímabili í fyrra. Fyrirtækið hagnaðist um 2,8 milljónir punda á þriðja fjórðungi eftir 5,7 milljóna punda tap á sama tíma í fyrra.

Ágúst og Lýður stærstu einstöku hluthafarnir

Bræðurnir Ágúst, sem jafnframt er forstjóri Bakkavarar, og Lýður, sem er stjórnarformaður, stofnuðu Bakkavör árið 1986. Þeir voru aðaleigendur félagsins þar til eftir bankahrun þegar þeir misstu eignarhaldð í hendur lánardrottna. Í kjölfar nauðasamninga árið 2010 var bræðrunum gefið tækifæri á að halda yfirráðum í Bakkavör gegn ákveðnum fyrirvörum. Fréttablaðið hefur m.a. sagt frá því að í byrjun þessa árs hafi verið ljóst að ólíklegt væri að félagið gæti staðið við kvaðirnar. Kröfum var því breytt í nýtt hlutafé og þeim gefinn kostur á að kaupa 25% af því. Aðeins um mánuður er síðan blaðið greindi svo frá því að þeir bræður hafi sankað að sér hlutum í Bakkavör á nýjan leik og hafi keypt um 40% hlut í félaginu af ýmsum kröfuhöfum fyrir rúma átta milljarða króna.