Bakkavör hefur selt matvælafyrirtækið Heli Fresh Foods í Tékklandi til tveggja félaga. Kaupendur eru Yazico Investments Ltd og Axentia Financial Consultants Ltd. Bakkavör gefur ekki upp í tilkynningu á hvað fyrirtækið var selt. Heli Fresh Foods framleiðir tína rétti, súpur og sósur til sölu í Austur-Evrópu.

Haft er eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, á vef fyrirtækisins að salan sé liður í áformum félagsins að skerpa á áherslum og beina sjónum að vaxtarmörkuðum.

Bakkavör keypti 51% hlut í Heli Food Fresh sumarið 2007 og samdi um kaup á því sem eftir stóð í apríl 2010. Stjórn fyrirtækisins hefur unnið að sölu á nokkrum eignum upp á síðkastið. Undir lok síðasta árs seldi Bakkavör rekstur í Frakklandi og á Spáni og ákvað í vor að loka verksmiðju í Coburg í Kanada . Þá seldi Bakkavör meirihluta sinn í matvælafyrirtækinu Creative Foods í Kína í síðasta mánuði.