Bakkavör hefur selt 40% hlut samstæðunnar í ítalska matvælafyrirtækinu Italpizza. Það er hópur lykilstjórnenda ítalska fyrirtækisins með forstjorann Cristian Pederzini í fararbroddi sem kaupir hlutinn. Á sama tíma var samið um að stjórnendurnir geti keypt það sem út af stendur, 60% hlut í Italpizza, innan þriggja ára.

Ekki kemur fram í tilkynningu á vef Bakkavarar hvað hluturinn í Italpizza var seldur á.

Bakkavör keypti rekstur Italpizza, sem sérhæfir sig í  framleiðslu á ferskum og frosnum eldbökuðum pizzum, vorið 2008. Helstu viðskiptavinir Italpizza þá voru stórmarkaðir, heimsendingarþjónustur og veitingastaðir víðsvegar um Evrópu og Norður - Ameríku. Italpizza var stofnað árið 1991 og er með 230 starfsmenn í Modena á Norður Ítalíu.

Þar er haft eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að salan sé liður í þeim áformum fyrirtækisins að leggja meiri áherslu á starfið í Bandaríkjunum, Bretlandi og í Asíu. Í samræmi við þetta hefur Bakkavör verið að draga úr starfsemi sinni í Evrópu og selt fyrirtæki sín þar.