Creative Foods, félag Bakkavarar í Kína hefur selt 80% hlut sinn í matvælafyrirtækinu Yantai Longshun Foods fyrir 16 milljónir júana, jafnvirði um 300 milljóna íslenskra króna. Yantai Longshun Foods sérhæfir sig í framleiðslu á grænmeti og ávöxtum. Greint var frá því í janúar árið 2008 að Bakkavör hafi keypt hlutinn í kínverska fyrirtækinu. Kaupverðið var sagt trúnaðarmál á sínum tíma.

Fram kemur í uppgjöri Bakkavarar fyrir þriðja ársfjórðung að salan á hlutnum hafi gengið í gegn í byrjun árs og hafi Bakkavör hagnast um 300 þúsund pund eignasölunni.

Þetta er ekki eina eignasala Bakkavarar en fyrir tæpu ári seldi félagið þrjár verksmiðjur í Frakklandi og tvær á Spáni fyrir 33 milljónir evra, jafnvirði um 5,3 milljarða íslenskra króna.