Breski bankinn Barclays hefur hafið sölu á lánum að upphæð 500 milljónir punda (58,8 milljarðar íslenskra króna), sem að hluta verða notuð til að fjármagna kaup Bakkavarar Group á breska matvælafyrirtækinu Geest, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Lánið verður einnig notað til þess að endurfjármagna sameinað fyrirtækið. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag en þar má einnig finna ítarlegt viðtal við þá Bakavararbræður.

Bakkavör greiddi í síðustu viku 73,7 milljarða króna fyrir Geest. Með greiðslunni hefur fyrirtækið uppfyllt alla skilmála kaupanna og er yfirtakan þar með að fullu frágengin.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins í London segja að eftirspurn eftir láninu sé góð og segja talsmenn Bakkavarar að fyrirtækið hafi samið um hagstæð vaxtakjör sem muni spara yfir milljarð í vaxtagreiðslur. Bankamenn í London segja að Bakkavör hefði þó að öllum líkindum geta samið um enn betri kjör.

Lánið er fimm ára sambankalán, sem er sölutryggt af Barclays, og er hluti lánsins seldur til annarra banka á evrópskum lánamarkaði. Kjörin eru 150 punktar (1,5%) yfir LIBOR. LIBOR-vextir eru breytilegir vextir sem tilgreindir bankar í London bjóða öðrum bönkum á lánum veittum til tiltekins tíma og eru notaðir sem viðmiðun í lánssamningum.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.