Bakkavör hefur valið HSBC og Morgan Stanley til að leiða komandi hlutafjárútboð matvælarisans, sem spáð er geti numið allt að 1 milljarði breskra punda, eða 137 milljörðum króna.

Einnig hafa aðilar frá Barclays, Citigroup, Rabobank í Hollandi og verðbréfamiðlarinn Peel Hunt gengið til liðs við undirbúninginn. Þetta kemur fram í frétt Telegraph um málið en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í janúar hafði félagið fengið sérfræðinga frá Rotschilds til að leiða útboðið.

Í fréttinni er saga og vöxtur Bakkavarar rakin, og hvernig „Bakka Brothers“, eins og þeir Bakkavararbræður, Lýður og Ágúst Guðmundssynir eru kallaðir í fréttinni.

Misstu ráðandi hlut en náðu honum aftur

Er sagt frá því hvernig þeir byrjuðu fyrir 31 ári að byggja upp lítið fiskiðjufyrirtæki í risavaxinn matvælaframleiðanda á Bretlandsmarkaði. Félagið sem nú hefur um 18 þúsund manns í vinnu, þar af 16.500 í Bretlandi, er nú orðið stærsti einstaki framleiðandinn á Hummus í landinu sem dæmi, og selur vörur sínar til verslana á borð við Tesco, Marks & Spencer, Waitrose og Sansbury´s.

Stækkunin hafi þó verið knúin áfram með lántökum sem leiddi til þess að þegar fjármálakreppan reið yfir hafi þeir bræður þurft að gefa eftir ráðandi hlut í félaginu. Í samstarfi við vogunarsjóðinn Baupost hófu þeir þó að kaupa aftur hluti í félaginu og halda þeir í dag ráðandi hlut í félaginu, þar sem Ágúst er framkvæmdastjóri en Lýður stjórnarformaður.

Á síðasta ári nam hagnaður félagsins 63,1 milljón punda en tekjurnar voru 1,76 milljarður. Miðað við núverandi gengi samsvarar það 8,7 milljörðum króna í hagnað og 241 milljarði í tekjur.