Bakkavör tapaði 1,2 milljónum punda, jafnvirði rétt rúmlega 228 milljónum íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er talsvert verri niðurstaða en fyrir ári þegar hagnaður félagsins nam 4,9 milljónum punda eða rúmum 900 milljónum íslenskra króna. Uppgjörið er ágætt en fyrsti ársfjórðungur er alla jafna í þyngri kantinum, samkvæmt upplýsingum frá Bakkavör.

Fram kemur í uppgjöri Bakkavarar að velta nam 407,9 milljónum punda á fjórðungnum sem var 4% aukning á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir einskiptikostnað nam 12,9 milljónum punda. Að teknu tilliti til hans nam rekstrarhagnaðurinn 11,4 milljónum punda eða tæplega 2,2 milljarða íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam rekstrarhagnaður að teknu tilliti til allra þátta 11,1 milljón punda. Samkvæmt upplýsingum frá Bakkavör er einkum horft til sambærilegra þátta í rekstrinum (e. like-for-like) fremur en einskiptiþátta. Miðað við það er staðan góð. Horft á það nam veltan 414,3 milljónum punda sem var 6% vöxtur á milli ára.

Fram kemur í uppgjöri Bakkavarar að eignir félagsins námu 1.225 milljónum punda á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við 1.240 milljónir punda á sama tíma í fyrra. Á móti eignum námu skuldir 379,7 milljónum punda. Á sama tíma í fyrra námu skuldirnar 390,5 milljónum punda.