Stjórnvísi hefur veitt Bakkavör Group verðlaun fyrir árskýrslu ársins 2006 en á síðasta ári hlaut félagið viðurkenningu fyrir vel unna árskýrslu. Glitnir og Kaupþing fengu þá viðurkenningu í ár. Glitnir hreppti þessi verðlaun á síðasta ári. Þetta er þriðja árið sem verðlaunin eru veitt.

"Ársskýrsla Bakkavör Group er falleg skýrsla," segir í áliti dómnefndar, "þar sem útlit og hönnun styðja vel við skipulega umfjöllun um stefnu, starfsemi og árangur. Skýrslan er vel útfærð lýsing á rekstri félagsins og þar er að finna greinargóða samantekt á því hvernig markmið félagsins og vöruþróun taka mið af breytingum samfélags- og viðskiptahátta eftir markaðssvæðum og markhópum. Framsetning efnis er afar skýr og efni skýrslunnar vel flokkað."

Þátttakendur í valinu eru sjálfkrafa þau hlutafélög sem skráð eru í OMX Nordic Exchange á Íslandi. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á nauðsyn þess að vandað sé til verka við gerð ársskýrslna og undirstrika mikilvægi þeirra í upplýsingagjöf fyrirtækisins. Þess er vænst að verðlaunin séu fyrirtækjum hvatning til að gera enn betur á þessu sviði, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Sérstök áhersla við val á ársskýrslu ársins 2006 var lögð á stjórnarhætti fyrirtækja og umfjöllun um launakjör stjórnenda samkvæmt reglum fyrir útgefendur verðbréfa í Kauphöllinni.

Dómnefnd verðlaunanna var skipuð þeim Þorkeli Sigurlaugssyni, framkvæmdastjóra nýsköpunar- og þróunarsviðs Háskólans í Reykjavík, Heimi Haraldssyni, löggiltum endurskoðanda og Stefáni Halldórssyni, framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga.

Stjórnvísi, félag sem miðlar þekkingu um stjórnun og stjórnunaraðferðir, er framkvæmdaaðili verðlaunanna en OMX Nordic Exchange á Íslandi bakhjarl verkefnisins.