*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 14. ágúst 2020 07:02

Bakki bíður niðurstöðu að vestan

Á næstu dögum er von á forákvörðun bandarískra stjórnvalda um hvort innflutningur á kísilmálmum frá Íslandi sé undir verðlagi.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Jónasson

Á næstu dögum er von á forákvörðun bandarískra stjórnvalda um hvort innflutningur á kísilmálmum frá Bosníu Hersegóvínu, Íslandi og Malasíu til landsins sé undir eðlilegu verðlagi. Verði það niðurstaðan er mögulegt að tollar verði lagðir á vöruna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu ytra. Könnunin hófst í kjölfar kvartana frá Globe Speciality Inc. og Missisippi Silicon LLC.

„Sömu fyrirtæki fóru í svipaða vegferð gegn Noregi um árið og höfðu ekki erindi sem erfiði. Við meðferð málsins var óskað eftir greinargerð frá okkur og svörum við spurningum sem við skiluðum samviskusamlega. Núna erum við bara í biðstöðu,“ segir Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri PCC á Íslandi. Verksmiðju félagsins á Bakka var lokað tímabundið vegna veirufaraldursins og ekki útséð með opnun á ný.

„Markaðurinn fór á hliðina vegna veirunnar. Við nýttum tækifærið til að ráðast í ýmsar fyrirhugaðar endurbætur en óvissan er gríðarleg. Við vonumst til þess að þetta fari af stað kringum áramót en þetta er atburðarás sem maður hefur litla stjórn á,“ segir Rúnar.

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins segir að ráðuneytið hafi komið áhyggjum íslenskra stjórnvalda á mögulegum tollum á vöruna á framfæri við stjórnvöld ytra og farið fram á að eiga beina aðkomu að málinu. Grannt sé fylgst með framvindu málsins.

Stikkorð: PCC