Hagstofa Íslands birtir niðurstöður mælinga sinna á vísitölu neysluverðs í febrúar á mánudaginn. Greiningaraðilar spá því að verðbólga hækki um 0,2% á milli mánaða og að tólf mánaða verðbólga hækki í kjölfarið úr 6,9% í 7,2%. Þannig búast greiningaraðilar við að bakslag verði í hjöðnun verðbólgu. Tólf mánaða verðbólga náði hámarki sínu í ágúst á síðasta ári þegar hún var 8,6% en hefur hjaðnað hratt undanfarna mánuði. Greiningaraðilar búast þó við að bakslagið vari stutt og að verðbólga muni lækka á nýjan leik í mars þegar virðisskattslækkanir á allskyns neysluvöru taka gildi.

Greiningaraðilar segja ástæðu hækkunar nú vera þá að mat-og drykkjarvara hafi hækkað í kjölfar gjaldskrárhækkanna birgja frá árámótum. Árstíðarbundin áhrif útsalna á fötum og skóm vega þó á móti.

Greiningardeild Landsbankans segir fyrirsjáanlegt að tólf mánaða verðbólga fari hratt lækkandi á næstu mánuðum þegar áhrif lækkunar virðisaukaskatts koma að fullu fram. Landsbankinn býst við að Seðlabankinn nái 2,5% verðbólgumarkmiði sínu í vor. Greining Glitnis gerir ráð fyrir að verðbólga verði líttilega yfir markmiði Seðlabankans á þessu ári og verði 2,9% stærstan hluta árs.