Mikil óvissa ríkir um áform Evrópusambandsins (ESB) um að koma sér upp gervihnattarstaðsetningarkerfinu Galileo fyrir árið 2010, í kjölfar þeirrar deilu sem sprottin er á milli aðildarríkja ESB og fyrirtækjanna sem vinna að verkefninu. Innbyrðisátökum milli þeirra verktaka sem standa að gerð kerfisins auk hrepparígs og óeðlilegra afskipta yfirstjórnar ESB af gangi mála er kennt um. Mikið er í húfi sökum þess að kerfinu var meðal annars ætlað að verða tákn samkeppnishæfni ESB á sviði hátækni.

Í frétt Financial Times í gær kemur fram að ljóst er að kerfið verður ekki gangsett fyrr en í fyrsta lagi árið 2011. Aðildarríki ESB óttast að Kínverjar gætu orðið á undan Evrópu að koma sér upp sínu gervihnattarstaðsetningarkerfi, en stutt er síðan að ráðamenn í Peking tilkynntu að árið 2008 myndi Beidou-kerfið þeirra ná yfir allt Kína og einnig nágrannaríki þess í Asíu.

Galileo verkefninu var upphaflega hrundið af stað á tíunda áratugnum og var ætlað að koma í stað GPS staðsetningarkerfis Bandaríkjamanna. Stjórnvöld og fyrirtæki í Evrópu fá gjaldfrjáls afnot af því kerfi. Hinsvegar áskilja bandarísk stjórnvöld sér rétt til þess að loka fyrir aðgangi annarra þjóða ef þjóðaröryggishagsmunir kalla á slíkt úrræði og í ljósi þess töldu ráðamenn í Evrópu rétt að þróa eigið kerfi.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.