Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sent út tilkynningu um að neysluvatn í öllum hverfum borgarinnar að undanskildum Grafarvogi, Norðlingaholti, Úlfarsárdal og Kjalarnesi innihaldi bakteríu sem ekki á að finnast þar. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leggur til að í varúðarskyni vatn sé soðið fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Tilkynning Veitna:

Mælst hefur fjölgun jarðvegsgerla í kalda vatninu Í Reykjavík. Tvö sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tók 12. janúar stóðust ekki viðmið í reglugerð. Í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið með því að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta á við um öll hverfi borgarinnar nema Grafarvog, Norðlingaholt, Úlfarsárdal, Kjalarnes auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk þar sem ekki hefur mælst gerlafjöldi yfir viðmiðunarmörkum.

Líkleg ástæða fyrir fráviki í gerlamagni er mikil hlákutíð undanfarið í kjölfar langs frostakafla. Við slíkar aðstæður getur yfirborðsvatn komist í grunnvatn og flutt með sér gerla. Ef gerlamagn í borholu mælist yfir mörkum er vatnstöku úr henni hætt. En nú er sú staða komin upp að búið er að taka það margar holur úr rekstri Veitna að ekki er hægt að anna vatnsþörf viðskiptavina ef þær verða fleiri . Því þurfum við nú að nýta eina holu þar sem fjöldi jarðvegsgerla hefur mælst yfir mörkum. Í þeirri holu hafa ekki fundist E. coli gerlar. Við munum áfram taka regluleg sýni úr borholunum og haga vatnstöku eftir niðurstöðum þeirra.