Gríðarleg óánægja er innan Arion banka með kaup Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á 16% hlut í N1 og myndun félags utan um nýja meirihlutaeign í eldsneytis- og smásölurisanum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Eftir kaupin verður Arion banki einangraður minnihlutaeigandi með 39% eignarhlut á meðan hið nýstofnaða félag í eigu FSÍ, Íslandsbanka og nokkurra lífeyrissjóða sem áttu skuldabréf á N1 verður með að minnsta kosti 55% eignarhlut. Í tilkynningu sem FSÍ sendi frá sér vegna kaupa sinna á hlutafé í N1 kom fram að nýi meirihlutaeigandinn ætli sér að „leiða áfram þróun og uppbyggingu félagsins“.

Kom á óvart

Á mánudag var tilkynnt um að FSÍ hefði keypt 15,8% hlut í N1 af Íslandsbanka og skilanefnd Glitnis. Samhliða kaupunum gerði FSÍ samkomulag við Íslandsbanka og nokkra lífeyrissjóði um að þessir aðilar myndu leggja hlutabréf sín inn í sameiginlegt félag sem myndi fara með meirihluta hlutafjár í N1 og leiða fyrirtækið í framtíðinni. Samkvæmt upplýsingum frá FSÍ verður eignarhlutur hins sameiginlega félags að minnsta kosti 55%. Hann gæti orðið stærri ef fleiri fyrrum skuldabréfaeigendur sem fengu hlutabréf í N1 fyrir kröfur sínar verða tilbúnir að taka þátt í félaginu.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þessi tíðindi hafi komið stjórnendum Arion banka í opna skjöldu og að þeir séu afar ósáttir við atburðarásina.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.