Málflutningur vegna kröfu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, um að ákæru á hendur honum fyrir meint innherjasvik verði vísað frá fer fram mánudaginn 20. desember nk.

Baldur er ákærður fyrir að hafa selt hlutabréf í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna 18. og 19. september en hann er í ákæru sagður hafa búið yfir margvíslegum innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans, einkum vegna setu hans í samráðshópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika fyrir hrun bankanna.

Meðal upplýsinga sem nefndar eru í ákæru er fundur með Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, þar sem fjallað var um vandamál er tengdust Icesave- reikningum.