Baldur G. Jónsson hefur verið ráðinn mannauðsstjóri Landsbankans. Um 90 manns sóttu um stöðuna.

Baldur lauk prófi sem sálfræðingur (cand. psyk) frá Kaupmannahafnarháskóla 1999, BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 1994 og er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík af mannauðslínu skólans.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að Baldur hafi undanfarin ár gegnt starfi mannauðsráðgjafa hjá Skiptum hf, móðurfélagi Símans og hjá fleiri fyrirtækjum. Þar sinnti hann verkefnum tengdum vinnustaðagreiningu, frammistöðusamtölum, þjálfun og liðseflingu, stjórnendaþjálfun, innri markaðssetningu og ráðningu sérfræðinga og stjórnenda. Áður hefur Baldur m.a. starfað hjá Hagvangi, IBM og PricewaterhouseCoopers þar sem hann sinnti ýmsum ráðgjafastörfum tengdum mannauðsmálum.

Ný staða innan bankans

Mannauðsstjóri er ný staða í Landsbankanum og verður innan þróunarsviðs. Meðal verkefna mannauðsstjóra verður ráðgjöf og stuðningur við stjórnendur, mótun traustrar fyrirtækjamenningar, þróun mannauðsstefnu og frammistöðumats auk starfsþróunarmála.

Baldur er kvæntur Kristínu B. Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi og eiga þau þrjú börn. Hann mun hefja störf að hluta strax í þessum mánuði en að fullu í október.

Atli Atlason var áður yfir starfsmannasviði bankans en hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra starfsmannasviðs Landsbankans.