Hæstiréttur hefur staðfest tveggja ára óskilorðsbundinn fangelsisdóm yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Héraðsdómur dæmdi hann í apríl í fyrra vegna innherjasvika og brota í opinberu starfi.

Baldur var ekki viðstaddur dómsuppsöguna.

Baldur seldi hlutabréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna í september árið 2008, rétt fyrir fall bankanna. Á sama tíma sat Baldur í sérstökum aðgerðahópi stjórnvalda um fjármálastöðugleika.

Hæstiréttur dæmdi Baldur jafnframt til að endurgreiða milljónirnar 192 sem hafa verið frystar á reikningi hjá Arion banka. Til viðbótar þarf hann að greiða verjanda sínum þrjár milljónir króna.

Einn vildi sýknun - verjandi segir niðurstöðuna vonbrigði

Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari skilaði sératkvæði og vildi vísa máli Baldurs frá.

Karl Axelsson, verjandi Baldurs, sagði niðurstöðuna vonbrigði. Hann sagði aðspurður hafa tekið allt of mikinn tíma, þrjú og hálft ár. Hann sagðist heldur ekki vita um fjárhagslega stöðu Baldurs. Hann sagðist eiga eftir að kynna sér niðurstöðu dómsins þrátt fyrir að um staðfestingu á öðrum dómi sé að ræða.

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari vildi að refsingin yfir Baldri yrði þyngd í allt að níu ára fangelsi. Hún vildi ekki tjá sig um dóminn við Viðskiptablaðið þegar eftir því var leitað.