Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefur verið ákærður fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Þetta staðfesti Arnar Þór Stefánsson hdl., annar tveggja lögmanna Baldurs, í samtali Viðskiptablaðið. Ákæran var birt Baldri í dag. Karl Axelsson hrl., sem er lögmaður á Lex lögmannsstofu líkt og Arnar, er einnig lögmaður Baldurs í málinu.

Ákæran byggir á sölu Baldurs á hlutabréfum í Landsbankanum, 18. og 19. september 2008, upp á 192 milljónir króna. Baldur var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og sat í samráðshópi stjórnvalda um fjármálstöðugleika. Er Baldur, samkvæmt ákæru, sakaður um að hafa haft innherjaupplýsingar um stöðu Landsbankans undir höndum þegar hann seldi bréf sín.

Björn L. Bergs, sérstakur ríkissaksóknari, gefur ákæruna út þar sem embætti ríkissaksóknara fer eitt með ákæruvald í málum þar sem um er að ræða brot í opinberu starfi.

Málið verður þingfest 22. október klukkan 09:30 í Héraðsdómi Reykjavíkur.