Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, krefst þess að ákæru á hendur honum verði vísað frá. Krafa hans var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Hún byggir m.a. á því að Fjármálaeftirlitinu hafi ekki verið heimilt að endurupptaka málið, eftir að rannsókn á viðskiptum Baldurs hafði lokið án þess að FME hafi séð ástæðu til aðgerða. FME vísaði málinu á grundvelli endurupptöku málsins til sérstaks saksóknara í kjölfarið. Sem síðan leiddi til ákæru 22. október sl.

Ákæran byggir á því að Baldur hafi selt hlutabréf í Landsbankanum fyrir 192 milljónir króna, á grundvelli innherjaupplýsinga, sem hann hafði m.a. vegna starfa fyrir samráðshóp stjórnvalda um fjármálastöðugleika.