*

sunnudagur, 20. júní 2021
Fólk 13. september 2008 22:51

Baldur Guðnason stefnir Eimskipi

Segir Eimskipafélagið skulda sér um 140 milljónir króna

Ritstjórn

Baldur Guðnason, fyrrverandi forstjóri Eimskipafélagsins hefur stefnt félaginu vegna brota á starfslokasamningi.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Þar sagði Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Baldurs að Eimskip hafi brotið á Baldri með því að virða ekki starfslokasamning við hann. Samkvæmt frétt RÚV segir Baldur Eimskipafélagið skulda sér tæpar 140 milljónir króna eða laun í 22 mánuði en Eimskip stöðvaði allar greiðslur til hans í maí.

Þá kemur fram að samkvæmt ráðningarsamning átti Baldur rétt á launagreiðslum í 24 mánuði frá því hann lét af störfum og voru laun hans 50.000 evrur á mánuði og áttu að vera greidd frá og með 1. mars 2008 og ljúka í febrúar 2010.

Í maí á þessu ári tilkynnti stjórn félagsins hinsvegar að ákveðið hefði verið að skoða viðskilnað Baldurs. Meðan ítarleg skoðun á því fari fram hafi stjórn félagsins ákveðið að stöðva allar greiðslur til hans þar til niðurstaða liggi fyrir.

Baldur hefur nú stefnt félaginu vegna þessa máls.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Baldurs, sagði í kvöldfréttum RÚV ekki skýrt hvaða kröfur Eimskip hafi á Baldur og segir að hann hafi lögin sín megin. Sigurður segir að Baldur hafi ekki gengið út úr Eimskip með neinn hagnað vegna söluréttar á hlutabréfum.

Fréttastofa Sjónvarps hafði samband við forsvarsmenn Eimskips í dag og óskaði eftir viðtali við Sindra Sindrason, stjórnarformann, vegna málsins en því var synjað. Staðfest var að ákveðinn ágreiningur væri uppi um starfslok Baldurs en félagið myndi ekki tjá sig nánar um starfslokinn. Félagið sé að skoða réttarstöðu sína varðandi þessi mál.