Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Regin, hefur boðið sig fram til stjórnar Síldarvinnslunnar (SVN). Alls bárust fimm framboð til stjórnarinnar sem verður því sjálfkjörin.

Baldur mun koma inn í stjórnina fyrir Inga Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóra Gjögurs, sem býður sig nú til varastjórnar. Ingi Jóhann og systir hans Anna Guðmundsdóttir eru stærstu hluthafar Kjálkanes sem á 17,4% hlut í SVN. Anna mun sitja áfram í stjórn Síldarvinnslunnar.

Kjálkanes var með 34% hlut í SVN fyrir hlutafjárútboð félagsins í síðasta mánuði en seldi 15% hlut í útboðinu og 2% til viðbótar 9.-10. júní . Eftir söluna eiga Samherji og Kjálkanes samtals 50,08% hlut í Síldarvinnslunni.

Í framboði til stjórnar Síldarvinnslunnar eru:

  • Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður
  • Guðmundur R. Gíslason, varaformaður stjórnar
  • Anna Guðmundsdóttir
  • Baldur Már Helgason
  • Björk Þórarinsdóttir

Í varastjórn:

  • Arna Bryndís Baldvins McClure
  • Ingi Jóhann Guðmundsson,

Baldur Már Helgason, sem kemur inn í stjórn SVN, er með Cand.sci. próf í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og með löggilt próf í verðbréfaviðskiptum. Hann var framkvæmdastjóri Eyju fjárfestingarfélags árin 2017- 2019, Fjárfestinga- og sjóðsstjóri hjá Auði Capital árin 2009-2016. Fjárfestinga- og lánastjóri hjá Íslandsbanka, m.a. í Bandaríkjunum og Danmörku frá 2000 til 2009. Hefur setið í stjórnum hjá Skeljungi, Sýn, Securitas, Já, Íslenska Gámafélaginu og Domino‘s Íslandi og Noregi en situr ekki í stjórnum annarra félaga í dag.