*

laugardagur, 29. janúar 2022
Fólk 28. júní 2021 20:10

Baldur Már í stjórn Síldarvinnslunnar

Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Regin, kemur inn í stjórn SVN fyrir Inga Jóhann Guðmundsson.

Ritstjórn
Baldur Már Helgason
Aðsend mynd

Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri viðskipta hjá Regin, hefur boðið sig fram til stjórnar Síldarvinnslunnar (SVN). Alls bárust fimm framboð til stjórnarinnar sem verður því sjálfkjörin. 

Baldur mun koma inn í stjórnina fyrir Inga Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóra Gjögurs, sem býður sig nú til varastjórnar. Ingi Jóhann og systir hans Anna Guðmundsdóttir eru stærstu hluthafar Kjálkanes sem á 17,4% hlut í SVN. Anna mun sitja áfram í stjórn Síldarvinnslunnar.

Kjálkanes var með 34% hlut í SVN fyrir hlutafjárútboð félagsins í síðasta mánuði en seldi 15% hlut í útboðinu og 2% til viðbótar 9.-10. júní. Eftir söluna eiga Samherji og Kjálkanes samtals 50,08% hlut í Síldarvinnslunni. 

Í framboði til stjórnar Síldarvinnslunnar eru: 

  • Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður
  • Guðmundur R. Gíslason, varaformaður stjórnar
  • Anna Guðmundsdóttir
  • Baldur Már Helgason
  • Björk Þórarinsdóttir

Í varastjórn: 

  • Arna Bryndís Baldvins McClure
  • Ingi Jóhann Guðmundsson,

Baldur Már Helgason, sem kemur inn í stjórn SVN, er með Cand.sci. próf í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og með löggilt próf í verðbréfaviðskiptum. Hann var framkvæmdastjóri Eyju fjárfestingarfélags árin 2017- 2019, Fjárfestinga- og sjóðsstjóri hjá Auði Capital árin 2009-2016. Fjárfestinga- og lánastjóri hjá Íslandsbanka, m.a. í Bandaríkjunum og Danmörku frá 2000 til 2009. Hefur setið í stjórnum hjá Skeljungi, Sýn, Securitas, Já, Íslenska Gámafélaginu og Domino‘s Íslandi og Noregi en situr ekki í stjórnum annarra félaga í dag.