Baldur Már Helgason hefur verið ráðinn í nýja stöðu hjá fasteignafélaginu Reginn, en hann verður framkvæmdastjóri viðskipta hjá félaginu.

Í starfinu felst að taka þátt í að móta, samræma og framkvæma viðskiptastefnu félagsins. Leiða teymisvinnu við nýfjárfestingar og umbreytingar á núverandi eignasafni. Stýra samþættingu rekstrareininga sem snúa að viðskiptatækifærum þ.m.t. að leiða útleiguteymi félagsins og hafa yfirumsjón með lánamálum, fjármögnun og endurfjármögnun félagsins og viðeigandi samskiptum við fjárfesta og fjármálastofnanir.

Baldur Már er véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Baldur var áður framkvæmdastjóri Eyju fjárfestingafélags þar sem hann bar ábyrgð á fjárfestingum og eignasafni félagsins auk þess að koma með margvíslegum hætti að rekstri dótturfélaga. Baldur hafði áður starfað í fjármálageiranum í um 16 ára skeið, m.a. sem fjárfestingastjóri á framtakssjóðasviði Virðingar frá árinu 2009 til ársloka 2016 þar sem Baldur bar ábyrgð á fjárfestingum og sölu á fyrirtækjum, samskiptum við fagfjárfesta og eftirfylgni fjárfestinga með stjórnarsetu í fjölda félaga. Þar áður starfaði hann sem fjárfestinga- og lánastjóri hjá Íslandsbanka á árunum 2000-2009, þar af í þrjú ár á skrifstofum bankans í Kaupmannahöfn og New York. Alls hefur Baldur setið í stjórnum og verið áheyrnarfulltrúi hjá á fjórða tug félaga, hér á landi og erlendis, og er í dag m.a. stjórnarmaður hjá Skeljungi.

Framkvæmdastjóri viðskipta heyrir beint undir forstjóra og situr í framkvæmdastjórn félagsins. Baldur hóf störf hjá Reginn í dag.