Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Magnús Gunnarsson, fyrrverandi formaður Vinnuveitandasambandsins eru meðal fjárfesta sem bættust í hóp hluthafa í verðbréfafyrirtækinu ALM Verðbréf. Alls bættust fimm fjárfestar í hluthafahópinn í síðasta mánuði með kaupum á samanlagt þriðjungshlut í fyrirtækinu að því er kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið.

Fyrir stuttu keypti kanadíska fjármálafyrirtækið Prospect Financial Group, sem Gordon Reykdal, ræðismaður Íslands í Edmonton í Kanada stýrir, keypti 9,95 prósenta hlut í félaginu. Halldór J. Kristjánsson, sem áður var bankastjóri í Landsbankanum er framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu. Hinir fjárfestarnir fjórir keyptu hver um sig 5,94 prósenta hlut í félaginu.

Baldur Guðlaugsson er einn af fimm nýjum eigendum en hann var í febrúar 2012 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi, einnig bættust í hluthafahópin félögin KGK tveir ehf. í eigu Kjartans Gunnarssonar, og Fjallatindar ehf. í eigu hjónanna Magnúsar Gunnarssonar og Gunnhildar Gunnarsdóttur og B30 ehf. í eigu hjónanna Stefáns Friðfinnssonar, fyrrverandi forstjóra Íslenskra aðalverktaka, og Ragnheiðar Ebenezersdóttur. Kjartan Magnússon er einnig hluthafi í Virðingu og er Magnús Gunnarsson varamaður í stjórn Fossa markaða.

Einnig kemur fram í fréttinni að Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri ALM Verðbréfa, sé afar ánægður að félagið hafi fengið öfluga fjárfesta til liðs við sig. Arnar er stærsti hluthafi ALM með 27,6 prósenta hlut. Þar á eftir koma Hjörtur H. Jónsson og Ísak S. Hauksson með 17,25 prósenta hlut hvor.