Að sögn Baldurs Péturssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Evrópubankanum, er vandi Íslendinga svo mikill að við hann verður ekki ráðið nema með miklu meira samstarfi við alþjóðasamfélagið. Baldur telur að aðild að Evrópusambandinu sé forsenda endurreisnar.

,,Þess vegna er umsókn um aðild að Evrópusambandinu alger forsenda endurreisnar eins og núverandi stjórnvöld stefna að, þar sem slíkt myndi þegar í stað byggja upp traust og trúverðugleika sem er alger forsenda fyrir aðgengi að alþjóðlegu fjármagni og bættu lánshæfnismati. Það er jafnframt nauðsynlegt til að forða frá enn meira hruni á næstunni. Umsókn er hins vegar ekki nægjanleg ein og sér. Samhliða verður að hefja samstarf við Seðlabanka Evrópu um aðgerðir til að tryggja styrkingu krónunnar og gengisstöðugleika, en slíkt samstarf myndi bæði byggja á umsókn um aðild að ESB sem og núverandi EES samningi,“ sagði Baldur.

Krónan helsta ástæða hrunsins

Baldur telur að ástandið á Íslandi sé einstakt og eigi sér ekki fyrirmyndir – af mörgum ástæðum. ,,Helsta ástæða efnahagshrunsins á Íslandi er krónan og þeir efnahagslegu veikleikar sem voru í kerfinu. Einnig er ljóst að tekin var gríðarlega áhætta - sem ekki var gerð grein fyrir - á mörgum sviðum sem fylgir því að hafa lang smæðsta gjaldmiðli heimsins á sama tíma og ríkir alþjóðavæðing á fjármálamörkuðum og frjálsir fjármagnsflutningar. Þetta er undirót hörmunganna á Íslandi og er enn að magna vandann á meðan ekki er komið á gjaldmiðlasamstarf við stærra gjaldeyriskerf, svo sem evruna. Þetta má glöggt sjá af samaburði við lönd innan evrunnar eins og Finnland, Írland og fleiri.“

Baldur benti á að vegna gengishruns krónunnar – langt umfram jafnvægisgengi (sem hann telur vera nálægt gegnisvísitölunni 140) – hvíli nú á þjóðinni aukalega  og að óþörfu um 1.000 milljarðar króna. Það stoppi allt á meðan gengið er ekki leiðrétt.

,,Þetta er hægt að leiðrétta og lækka um þessa 1.000 milljarða með leiðréttingu á gengi í jafnvægisgegni. Til umhugsununar er þess upphæða þrisvar sinnum stærri en hugsanlegt mesta tjón af Icesave  – eða sambærilegt og skuldir vegna 10 Kárahnjúkavirkjanir, allt að  óþörfu. Þetta stafar  m.a. af því að þjóðin er svo miklu meira skuldsett í erlendum lánum en áður – þess vegna eru allar gengissveiflur miklu hættulegri en áður.“

Mikilvægt að leiðrétta gengisfallið sem fyrst

Baldur sagði að ekki væri lengur ávinningur af því að fella gengið - þegar þjóðir eru að mestu skuldsettar í erlendri mynt - heldur er slíkt gríðarlega hættulegt og hefur í för með sér stórkostlegt tjón, eins og Ísland hefur fundið fyrir. ,,Því er svo mikilvægt að leiðrétta slíkt gegnisfall sem fyrst, áður en tjón vegna þessa magnast enn frekar, sem mikil hætta er á.

Þetta hefur skýrt komið fram í öðrum löndum t.d. í A-Evrópu. Því er allt kapp lagt á að fyrirbyggja miklar gengissveiflur.  Í þessum löndum, þar sem erlendar skuldir eru stórt hlutfall skulda eins og á Íslandi, er talið afar hættulegt fyrir fjármála- og bankakerfi viðkomandi landa ef gengisbreytingar eru meiri en 15% - 20%.  Á Íslandi er gengisfallið orðið 60% eða meira.  Það þarf því engan að undra að á Íslandi sé mesta gjaldeyris- og fjármálakreppa sögunnar, sem allt er að setja í auðn. Út úr þeim vanda verður að komast sem allra fyrst."

Gefur von um skjóta endurreisn

Baldur sagði að þetta myndi auka gjaldþrot og vandann verulega verði gengið ekki leiðrétt. ,,Vegna þessa er svo mikilvægt að leiðrétta miklar og óeðlilegar gengissveiflur sem allra fyrst - í stöðu jafnvægisgengis - til að forða miklu viðbótartjóni, vegna slíkra sveiflna. Slíkt er ekki hægt nema með aukinni alþjóðlegri aðstoð.“

Baldur sagði að nýleg samþykkt Alþingis um umsókn um aðild að Evrópusambandinu sé afar mikilvæg sem og samstarf við Seðlabanka Evrópu, eins og komið hefur fram hjá stjórnvöldum. "Þessi stefnumörkun og líkleg endurreisn bankanna - gefur sterka von um að árangursrík og skjót endurreisn sé miklu mun líklegri en áður, verði markvisst staðið að þeirri vinnu sem framundan er, ekki síst á sviði gjaldeyrismála og samstarfs við Seðlabanka Evrópu. Þar má ekkert fara úrskeiðis."