Umræða um mál Baldurs Guðlaugssonar hefur verið því marki brennd að Baldur hefur legið undir ámæli allt frá haustdögum 2008 að sala hans á hlutabréfum í Landsbankanum hafi falið í sér refsiverðan verknað. Þetta segir í greinargerð sem lögmaður Baldurs hefur skilað til Hæstaréttar. Baldur var í apríl dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja ára fangelsi fyrir að nýta sér innherjaupplýsingar og fyrir brot í opinberu starfi, þegar hann seldi hlutabréf í Landsbankanum að andvirði 193 milljónum króna. Það var í september 2008.

Niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar. Viðskiptablaðið hefur greinargerðir í málinu undir höndum. Í greinargerð Baldurs segir að „[s]ú mynd hefur þannig verið dregin upp af ákærða að hann hafi búið yfir upplýsingum um yfirvofandi fall bankanna og að hann hafi nýtt sér þær upplýsingar í hagnaðarskyni.“  Umræðan er sögð hafa verið fádæma hörð og óvægin, og ákærði sviptur atvinnu og æru. „Þegar betur er að gáð er fjarðstæðukennt að ákærði hafi á umræddum tíma og fremur öðrum búið yfir vitneskju um þau ósköp sem í vændum voru í október 2008,“ segir í kaflanum. „Í forsendum hins áfrýjaða dóms virðist það því miður vera þannig að sú almenna mynd sem fjölmiðlar hafa dregið upp af máli ákærða verður ráðandi.“

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Viðskiptablaðið hefur greinargerðir Baldurs og ríkissaksóknara sem sendar hafa verið Hæstarétti undir höndum en með greinargerð Baldurs eru lögð fram ný gögn í 26 liðum.

Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Útgerðarfyrirtækið Brim hagnast um þrjá milljarða
  • Hvernig gengur Högum í Kauphöllinni?
  • Eimskip á alltof mikið af peningum
  • Skatturinn fettir fingur út í öfuga samruna
  • Framtakssjóðurinn búinn að selja mikið úr Vestia
  • Reykjavíkurborg þarf að borga mikið með Laugardalslaug
  • Ráðherrann Jón Bjarnason er ljúfur maður í miðjum stormi
  • Viðtal við Leif B. Dagfinnsson sem vinnur með Hollywoodstjörnum hjá True North
  • Fólk skiptir um starfsvettvang
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, Týr líka og Óðinn skrifar um Landsdóm
  • Og margt margt fleira...