Baldvin Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja, stjórnarformaður Eimskipafélags Íslands, og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja, hefur sent út afsökunarbréf sem stílað er á starfsmenn, en einnig sent á fjölmiðla.

Bréfið er sent í tilefni þess, eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst fjölmiðla frá í hádeginu , að hann lét þau orð falla í morgun við Má Guðmundsson seðlabankastjóra að hann ætti að drulla sér í burtu og hafa sómatilfinningu, þegar Már reyndi að nálgast föður hans eftir nefndarfund Alþingis.

Athygli vekur að hann biður Má sjálfan ekki afsökunar þó hann segi orðavalið hafa gengið of langt. Hér má sjá þá feðga á spjalli rétt áður en Már gengur fram ganginn:

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Bréfið hljóðar svo:

„Kæru samstarfsmenn í Samherja.

Í morgun komst ég óheppilega að orði við seðlabankastjóra í hita leiksins í húsakynnum Alþingis. Orðaval mitt var ekki sæmandi og hefði ég gjarnan kosið að hafa valið kurteisislegri orð.

Í rétt sjö ár hefur Samherji setið undir ásökunum seðlabankans. Engin stoð hefur verið fyrir ásökunum bankans allan þennan tíma. Þetta hefur óneitanlega tekið á okkur öll sem þykir vænt um fyrirtækið, fjölskyldur okkar og starfsmenn.

Þegar við héldum að loks væri runnin upp sú stund að afsökunarbeiðni kæmi frá seðlabankanum var enn haldið áfram að réttlæta aðfarirnar. Við þær aðstæður fannst mér óviðeigandi að seðlabankastjóri nálgaðist föður minn kumpánlega og bað ég bankastjórann um að láta það ógert. Orðalagið við það tilefni gekk of langt. Mér þykir það leitt og vona að Alþingi og þið liðsfélagar mínir virðið mér þetta til vorkunnar.“

Eins og sjá má á myndbandi RÚV af atburðinum gengur Már Guðmundsson að orðaskiptunum loknum til Þorsteins Sæmundsonar, þingmanns Miðflokksins, sem tekur honum heldur fálega.

Þorsteinn, sem hafði spurt hann einarðra spurninga um Samherjamálið sem hófst með húsleit í höfuðstöðvum fyrirtækisins fyrir akkúrat sjö árum í dag , hefur í kjölfar nefndarfunarins í dag sagt að nú sé ekkert annað í stöðunni en að Már segi af sér .

Hér má sjá Má ganga út ganginn skömmu eftir orðaskiptin með Þorstein í bakgrunni:

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)