*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Innlent 27. apríl 2019 12:05

Baldvin heldur sæti stjórnarformanns

Baldvin Þorsteinsson verður áfram stjórnarformaður Eimskips eftir að hafa verið þriðji í kjöri á upphaflegum aðalfundi.

Ritstjórn
Feðgarnir Baldvin Þorsteinsson og Þorsteinn Már Baldvinsson.
Haraldur Guðjónsson

Sjálfkjörið var í stjórn Eimskipafélags Íslands á framhaldsaðalfundi félagsins í gær. Ekki tókst að kjósa löglega stjórn á upphaflegum aðalfundi þar sem stjórnarkjörið uppfyllti ekki lög um kynjahlutföll í stjórnum. Í kjölfarið dró Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrrverandi forstjóri HB Granda, framboð sitt í aðalstjórn til baka og bauð sig fram í varstjórn. Því var sjálfkjörið í stjórnina.

Þá var Baldvin Þorsteinsson, kjörinn stjórnarformaður á ný, og Hrund Rudolfsdóttir, verður áfram varaformaður stjórnar. Í frétt RÚV var greint frá því að Baldvin hefði verið þriðji í kjöri um stjórnarformannsembættið á eftir Lárusi L. Böndal og Vilhjálmi Vilhjálmssyni áður en í ljós kom að stjórnarkjörið stæðist ekki lög. Baldvin er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Samherji er stærsti hluthafi Eimskip með 27% hlut. 

Tveimur dögum fyrir aðalfundinn kom til orðaskaks á milli Baldvins og Más Guðmundssonar seðlabankastjóra eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um Samherjamálið og gjaldeyriseftirlit bankans. 

Óskar Magnússon kemur nýr inn í stjórnina fyrir Jóhönnu á Bergi sem tekur sæti í varastjórn með Vilhjálmi Vilhjálmssyni. Stjórnina skipa nú:

  • Baldvin Þorsteinsson
  • Guðrún Blöndal
  • Hrund Rudolfsdóttir
  • Lárus L. Blöndal
  • Óskar Magnússon