*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 25. júní 2021 19:05

Baldvin kaupir fyrir 30 milljónir

Baldvin Þorsteinsson stjórnarformaður Eimskips, keypti í dag hlutabréf í félaginu fyrir 30 milljónir króna á genginu 337,5 krónur á hlut.

Ritstjórn
Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips
Eyþór Árnason

Baldvin Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips, keypti í dag 90 þúsund hluti í félaginu fyrir rúmlega 30 milljónir króna, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Gengið í viðskiptunum var 337,5 krónur á hlut en til samanburðar er hæsta hlutabréfagengi Eimskips frá skráningu 339 krónur í nóvember 2016. Eftir viðskiptin á Þorsteinn 244.959 hluti í flutningafélaginu, að andvirði 92,5 milljónum króna ef miðað er við kaupgengið.

Eimskip hækkaði um 4% í Kauphöllinni í dag og hefur nú hækkað um 17,4% frá því að tilkynnt var þann 16. júní síðastliðinn um 1,5 milljarða króna sekt á félagið vegna samráðsbrota við Samskip á árunum 2008-2013. Eimskip hafði einnig hækkað verulega fram að sektinni eða alls um 155% frá því í október síðastliðnum.

Baldvin er meðal stærstu hluthafa Samherja og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Stærsti hluthafi Eimskips er Samherji Holding ehf. með 27,1% hlut.