*

sunnudagur, 24. október 2021
Fólk 5. janúar 2021 16:16

Baldvin stýrir Evrópuútgerð Samherja

Baldvin Þorsteinsson tekur við stjórn Evrópuútgerð Samherja af Haraldi Grétarssyni, sem hefur starfað hjá félaginu í tæp 30 ár.

Ritstjórn
Baldvin Þorsteinsson.
Eyþór Árnason

Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar annars forstjóra Samherja, tekur við sem framkvæmdastjóri Evrópuútgerðar Samherja Holding ehf. af Haraldi Grétarssyni sem mun láta af störfum í byrjun apríl næstkomandi. Haraldur hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Deutsche Fischfang Union (DFFU) í Cuxhaven, einu elsta útgerðarfélagi Þýskalands og setið í stjórnum ýmissa félaga. Baldvin mun verða með aðsetur í Hollandi. Samherji greinir frá þessu í frétt á vef sínum og segir þar jafnframt að samhliða þessu verði gerðar „eðlilegar skipulagsbreytingar á næstu misserum.“

Haraldur Grétarsson hefur starfað fyrir Samherja og tengd félög frá 1992. Hann mun eftir starfslokin sinna ráðgjöf fyrir félög tengd Samherja út þetta ár.

Haraldur segir í frétt Samherja að það hafi verið kominn tími á breytingar eftir tæplega þrjá áratugi og stærstan hluta tímans erlendis en hann flutti til Skotlands árið 1998 ásamt Hörpu Ágústsdóttur eiginkonu sinni og börnum þeirra.

„Þegar við fluttum til Skotlands í lok síðustu aldar og hófum að starfa fyrir Onward Fishing í Aberdeen þá óraði okkur ekki fyrir hvaða ferðalag við áttum fyrir höndum. Á þessu ferðalagi höfum við kynnst mörgu góðu fólki og mjög öflugum samstarfsmönnum sem hafa í sameiningu stuðlað að þeim frábæra árangri sem náðst hefur á þessum tíma. Fyrir það viljum við þakka og óska samstarfsfólki okkar alls hins besta um ókomna framtíð," er haft eftir Haraldi.

Fyrrnefndur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að Haraldur hafi verið einn af burðarásum í rekstri Samherja Holding um langt skeið. Hann hafi borið ábyrgð á Evrópuútgerð félagsins og um leið því flókna regluverki og þeim viðamiklu samskiptum sem fylgja sjávarútveginum í Evrópu.

Þorsteinn Már kveðst muna vel eftir því þegar hann réð Harald. „Ég hringdi í forstöðumann Sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri á sínum tíma þegar skólaárinu var að ljúka því mig vantaði mann til að skoða tölvukerfin hjá mér. Forstöðumaðurinn mælti með Haraldi. Ég þurfti fyrst að vita hvort hann kynni eitthvað til verka og setti hann því á vélaverkstæðið hjá okkur. Þegar hann var búinn að sanna sig þar þá fór hann og skoðaði tölvukerfin með mér, sem við höfðum báðir jafn lítið vit á. Við fundum fljótt út að það þyrfti ekkert að gera við þau þannig að Haraldur endaði sumarið á því að fara út á sjó. Það var mjög hollt fyrir borgarbarn úr Fossvoginum. Árið eftir mætti hann til vinnu, tók síðan lokaverkefni sitt hjá Samherja og hefur unnið fyrir okkur síðan. Hefur samstarf okkar verið bæði farsælt og lærdómsríkt og um leið vil ég þakka Hörpu fyrir samfylgdina öll þessi ár. " segir Þorsteinn Már í frétt Samherja. 

„Þau þrjú orð sem lýsa Haraldi best í mínum huga eru heiðarleiki, ósérhlífni og dugnaður. Það er ákaflega gott að vinna með Haraldi enda er hann hreinn og beinn í samskiptum. Hann hefur alltaf skilað sínu með miklum sóma og ég óska honum og fjölskyldu hans alls hins besta í framtíðinni," er haft eftir Kristjáni Vilhelmssyni, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja.