Baldvin Björn Haraldsson lögmaður hjá BBA Legal er lögmaður breska innistæðusjóðsins og Heiðar Ásberg Atlason lögmaður á Logos er lögmaður hollenska seðlabankans í máli sem höfðað hefur verið gegn Tryggingasjóði innistæðueigenda á Íslandi. Sjóðnum er stefnt vegna þess að fyrrgreindir aðilar bættu innistæðueigendum fé sem þeir höfðu lagt inn á Icesave reikningana. Eins og áður hefur komið fram gæta Karl Axelsson og Gunnar Viðar lögmenn hjá LEX hagsmuna TIF í malinu.

Krafan hljóðar í raun upp á 550 milljarða íslenskra króna. Ítrustu kröfur eru hins vegar upp á 1000 milljarða, en þá eru dráttarvextir og annar kostnaður reiknaður með.

Það er ekki hægt að gera Tryggingasjóð innistæðueigenda gjaldþrota þannig að ef sjóðurinn verður dæmdur til að greiða kröfuna mun hann greiða það sem hann á til, eða um 18 milljarða. Samkvæmt upplýsingum VB.is gera stefnendur kröfu um að upphæðin verði greidd að fullu og hún síðan fjármögnuð með álögum á bankakerfið í framtíðinni.

Hins vegar hefur ekki verið útskýrt hvort krafan sé gerð sé vegna kostnaðar á vexti eða hvort Bretar og Hollendingar séu með þessu að krefjast þess að fá höfuðstólinn greiddan. Ljóst er að LBI á nægar eignir til að greiða upp í höfuðstól krafnanna. Sé krafan aftur á móti gerð vegna vaxta þá horfir málið öðruvísi við.