Stjórn Jarðborana hf hefur ráðið Baldvin Þorsteinsson sem forstjóra félagsins. Baldvin tók við starfinu tímabundið í lok nóvember á síðasta ári og ákvað stjórn Jarðborana nú að ganga til samninga við Baldvin um að hann taki formlega við starfinu og gengið hefur verið frá ráðningasamningi.

Baldvin útskrifaðist með BS gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2007. Hann hefur starfað hjá Samherja frá árinu 2008, nú síðast sem framkvæmdastjóri Kaldbaks, fjárfestingarfélags í eigu Samherja.

Í tilkynningu er haft eftir Baldvini að hlutverk hans verði fyrst og fremst að leiða uppbyggingu á erlendri starfsemi félagsins og leita að og tryggja því verkefni þar. Eftirspurn eftir þjónustu félagsins hér heima hafi dregist mikið saman frá árinu 2008.