*

fimmtudagur, 28. janúar 2021
Innlent 27. mars 2019 12:03

Baldvin við Má: „Drullaðu þér í burtu“

Til orðaskaks kom á milli sonar Þorsteins Más og Más Guðmundssonar Seðlabankastjóra eftir nefndarfund á Alþingi.

Ritstjórn
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, benti Baldvini Má á að gæta orða sinna eftir að hann lét ummælin falla.
Haraldur Guðjónsson

Baldvini Má Þorsteinssyni, syni Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja og Má Guðmundssyni Seðlabankastjóra varð sundurorða eftir nefndarfund á Alþingi í morgun. Voru þeir feðgar meðal gesta á nefndarfundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sat fyrir svörum.

Fundinum var ætlað að fjalla um lög um gjaldeyrismál og stjórnsýslu Seðlabanka Íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits en eins og ítarlega hefur verið fjallað um hafa aðgerðir Seðlabankans við framkvæmd þess verið umdeildar.

Eftir fundinn spurði Már svo Þorstein Má hvort hann ætlaði að koma til fundar í Seðlabankanum, en ársfundur stofnunarinnar er á morgun. „Hafðu smá sómakenndi og drullaði þér í burtu,“ heyrðist þá hátt og snjallt í Baldvin Má Þorsteinssyni, syni Þorsteins Más, en hann er stjórnarformaður Eimskips.

Þorsteinn Már svaraði boðinu engu en Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG áminnti fundargesti um að gæta orða sinna.

Sjö ára afmæli Samherjamálsins í dag

Í dag eru akkúrat sjö ár síðan Seðlabankinn réðst í húsleit inn í höfuðstöðvar Samherja sem Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja gagnrýnir harðlega í bréfi sem hann hefur sent frá sér og Viðskiptablaðið fjallar um.

Á fundinum var Már spurður hvort ekki væri kominn tími á að hann bæði Þorstein Má afsökunar á málinu. „Við skulum skoða það,“ sagði þá Már sem ekki svaraði spurningunni afdráttarlaust þó hann segði að vel gæti verið einhver ástæða til þess. Hafði Þorsteinn Már í millitíðinni kallað upphátt: „Svaraðu spurningunni“ en fundargestir voru í kjölfarið beðnir um að hafa hljóð.

Einnig mátti skilja Má þannig að það hefðu verið upplýsingar frá RÚV, sem var á staðnum á báðum stöðum sem húsleit var framkvæmd á sama tíma, sem hefðu legið til grundvallar rannsókninni, þó einnig var deilt um það hvort rökstuddur grunur hefði verið fyrir henni og hvernig skilja mætti það orðalag í lögum.

„Það er ljóst að gögn voru afhent frá fréttamiðlinum til Seðlabankans, sem notuð voru við rannsókn málsins,“ sagði Már meðal annars.