Hörður Guðmundsson, stofnandi og forstjóri Ernis, staðfestir við fréttastofu Rúv að hann hafi átt fund með Michelle Ballarin, stofnandi hins nýja WOW Air, um möguleg kaup hennar á flugfélaginu Erni. Fundurinn átti sér stað fyrir um mánuði síðan en Ballarin hefur undanfarna mánuði unnið að endurrisa Wow air.

„Við hlustuðum á hvað var þarna á ferðinni og hún bar ákveðnar hugmyndir og borð en okkur fannst það ekki henta okkur að fara í frekari viðræður á þessum grundvelli,“ sagði Hörður í samtali við fréttastofu Rúv.

Hörður segir að Ballarin hafi ekki lagt fram formlegt tilboð í félagið. „Nei, það var ekkert slíkt enda hennar hugmyndir allt aðrar en okkar þannig að það fór ekki á það stig. Við fundum fljótt að þetta var ekki það sem hentaði okkar fyrirtæki eða áformum.“