Gengi hlutabréfa hefur hækkað nokkuð í Kauphöllinni frá því viðskipti hófust í morgun. Þetta er þriðji viðskiptadagurinn í röð sem ballið heldur áfram en það hófst á markaðnum á fimmtudag í síðustu viku. Hækkunin er í samræmi við uppsveifluna á mörkuðum víða um heim í dag. Hækkun á erlendum mörkuðum hefur að sama skapi staðið yfir síðan í síðustu viku.

Gengi hluta Haga-samstæðunnar hefur það sem af er dags hækkað um 2,13%, Marel um 2,07% og Bank Nordik um 2,01%. Þá hefur gengi bréfa Icelandair Group og Össurar hækkað um meira en 1%. Gengi bréfa Eimskips hefur hækkað um 0,41%. Aðeins gengi bréfa fasteignafélagsins Regins hefur lækkað í dag eða um 0,26%.

Uppsveiflan á markaðnum hefur dregið Úrvalsvísitöluna upp úm 1,57% og stendur hún í 1.107 stigum. Hún fór yfir 1.108 stig fyrir hádegið. Vísitalan tók gildi á Nýársdag og stóð hún þá í 1.000 stigum. Hún rauf 1.100 stiga múrinn í fyrsta sinn í síðustu viku en náði aldrei að enda yfir 1.100 stigunum.