*

mánudagur, 6. júlí 2020
Erlent 23. febrúar 2020 20:28

Bálreiður Rio Tinto

Rio Tinto vill lækkun raforkuverðs til álvers á Nýja-Sjálandi. Umhverfisráðherrann er búinn að fá sig fullsaddan af félaginu.

Ingvar Haraldsson
David Parker, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands.
epa

Móðurfélag Rio Tinto gaf út í október að það væri með til skoðunar að loka álveri félagsins á Nýja-Sjálandi. Tilkynningin var nær samhljóða tilkynningunni sem var svo send út í síðustu viku vegna álversins í Straumsvík. Rio Tinto fór þar fram á lækkun á raforkuverði þar sem rekstur álversins væri ekki sjálfbær miðað við núverandi verð. 

Stjórnvöld gáfu eftir 2013

Rio Tinto hugðist taka ákvörðun fyrir lok mars næstkomandi. Bent hefur verið á að árið 2013 hótaði Rio Tinto einnig að loka álverinu á Nýja-Sjálandi sem nýtir um 12% af raforkuframleiðslu Nýja-Sjálands. Þá féllust stjórnvöld á ríflega tveggja milljarða króna niðurgreiðslu til álversins. Nú hafa verið boðaðar reglugerðarbreytingar sem kunna að verða til þess að verðið sem Rio Tinto greiðir fyrir dreifihluta raforkunnar kunni að lækka þó nokkuð.

Hársbreidd frá umhverfisslysi

Inn í málið blandast að eitruð aukaafurð af álvinnslunni er geymd í gamalli pappírsverksmiðju í bænum Mataura á Nýja-Sjálandi, um klukkutímaakstursfjarlægð frá álverinu. Litlu mátti muna að umhverfisslys yrði þegar flóð fór í gegnum bæinn í byrjun febrúar og skemmdi fjölmörg hús. Íbúar á svæðinu segja að stórslys hefði getað orðið hefði vatnsyfirborðið hækkað um 20 sentimetra til viðbótar. Sveitarstjóri bæjarfélagsins fullyrti í kjölfarið að hann hefði handsalað samkomulag við stjórnendur álversins um að flýta því að fjarlægja eiturefnin.

Stjórn Rio Tinto er hins vegar hafa sögð hafa hafnað samkomulaginu og viljað halda sig við eldra samkomulag þar sem Rio Tinto greiðir einungis hluta kostnaðar við að fjarlægja eiturefnin. Það hefur vakið mikla reiði íbúa og stjórnvalda á Nýja-Sjálandi. David Parker, umhverfisráðherra Nýja-Sjálands, brást hvað harðast við. Hann segir Rio Tinto hafi of oft hrópað „úlfur úlfur“ í von um að fá niðurgreiðslur frá stjórnvöldum og hann væri kominn „með nóg af framferði“ fyrirtækisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér