Það er ekki tilviljun að erlend kvikmyndafyrirtæki hafa valið Ísland til að gera hér myndir að sögn Baltasars Kormáks. Í viðtali í Tímariti Samtaka atvinnulífsins, sem ber heitið „Fleiri störf - betri störf“. Hann segir að þegar svona ákvarðanir eru teknar af fyrirtækjunum séu skattamálin eitt af grundvallaratriðum. „Ég er t.d. með nokkur stór verkefni sem ég hef haft áhuga á að koma með til Íslands. Eitt heitir Everest og gerist á samnefndu fjalli og er risamynd sem Universal og Working Title eru að gera. Eitt af stóru málunum er að það sé á hreinu að skattaafslátturinn verði til staðar því annars koma þeir ekki. Það sama á við um fleiri.“

Hann segir að ef afslátturinn verður afnuminn fari verkefnin eitthvert annað. „Það er víða boðið upp á afslátt sem þennan, t.d. í New Orleans er 40% afsláttur þannig að við erum í erfiðri samkeppnisstöðu. Staðar er viðkvæm og þetta getur farið í einni svipan. Það er bara þannig,“ segir Baltasar.

Í Tímaritinu er Baltasar spurður að því hvort hætta sé á að Ísland detti úr tísku eða að skattaumhverfinu verði breytt. „Það er hætta á því, en ég vona að stjórnvöld beri gæfu til þess að sýna því skilning hversu mörg tækifæri hafa opnast. Það verður að skoða alvarlega hvernig er hægt að viðhalda árangrinum sem hefur náðst. Ég held að það sé engin hætta á því að Ísland detti úr tísku ef rétt er að staðið að málum. Tískan er eitt og svo eru fjárhagsforsendur annað. Þær eru miklu stærri ákvörðunarþáttur en tíska.“